Framtíð viðskipta – Einyrkjar og sjálfstætt starfandi

Á Íslandi eru 94% fyrirtækja örfyrirtæki eða micro enterprises. Sem sagt fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn. Einyrkjar og sjálfstætt starfandi með eigin rekstur. 

Því miður þá eru ekki til nægjanlegar upplýsingar um nákvæman fjölda einyrkja á Íslandi en í skýrslu sem Hagstofan vann fyrir SA og gefur ákveðna mynd af stöðunni kemur fram að árið 2016 greiddu örfyrirtæki 37.000 manns laun og upphæðin var 143 milljarðar.  

Þegar við tölum um að búa til ný störf og skapa fleiri tækifæri hvað þýðir það? 

Í þeirri stöðu sem uppi er núna þ.e. sú staðreynd að margir hættu rekstri vegna kreppunnar sem varð af völdum Covid og svo þeir sem náðu að bjarga sér fyrir horn og eru að komast í gang á ný sýnir enn og aftur hversu mikilvægt og nauðsynlegt það er að halda áfram, taka hugmyndir yfir á framkvæmdastigið, mæta þörfum og svara kalli þeirra sem vilja þjónustu og eiga viðskipti. Þannig mætum við atvinnuleysi, búum til breidd, fleiri fara af stað. Það er í raun alls ekki flókið. Það sem þvælist gjarnan fyrir er að trúa því að það geti gengið og að þeir sem vinna við að búa til umhverfið og rammann skilji stöðuna. 

Á þessum grunni varð viðskiptatengda vinnustofan til. Vettvangur til að mæta einyrkjum og sjálfstætt starfandi. Ég sá fyrir mér að staðsetning vinnustofunnar væri lykilatriði til að ná utan um verkefnið. Að vera þar sem næði og fallegt umhverfi styður við alla nálgun. 

Eitt af því sem að ég upplifi við það að starfa sjálfstætt er að halda fókus. Sem einyrki eða sjálfstætt starfandi ertu sá sem sérð um flest mál, byggja upp vörumerki, kynna vöru og þjónustu, í sumum tilfellum ertu varan, hvar á að kynna, við hverja á að tala, hversu oft, verðstefna, utanumhald, áætlanir, fjármál og samskipti, það er einfaldara en þig grunar að missa fókus og ætla að gera margt og allt. 

Að hitta þá sem hafa reynsluna af því að standa í þessum sporum, að hitta aðra sem hafa farið af stað, það er megin tilgangur vinnustofunnar.

Þetta er vettvangur þar sem við tölum raunverulega um það sem reynslan hefur kennt og hvaða leiðir hafa virkað. Megin markmiðið er að skilja eftir hjá þér hugmyndir sem þú gætir nýtt þér áfram í þínum rekstri.Til þess notum við ýmsar aðferðir.

Þú gætir verið að byrja, farinn af stað, eða að velta fyrir þér hvort þú ættir að gera það.

Það eru ótal tækifæri sem felast í sjálfstæðum rekstri en sú tegund viðskipta hefur ekki fengið mikið vægi eða athygli í nútíma viðskiptaumhverfi. Tækifæri sem stuðla að frelsi og ánægju aðila sem ekki finna sig í skipuritum og kassalaga umhverfi flestra fyrirtækja. Með stöðugri og hraðari tækniþróun ættu langflestir að geta unnið fyrir sjálfa sig kjósi þeir það.