Saga um tíma

Vinnustofan EFI
3. september, 2018
Spurningar eru upphafið að mörgu
4. september, 2018

Lilja Hallbjörnsdóttir, ACC markþjálfi og eigandi Markhóls.

Saga um tíma

Setur tíminn okkur skorður? Eða vinnur tíminn með okkur? Tíminn er allt í kringum okkur, við höfum ýmist nægan tíma, lítinn tíma eða engan tíma. Mig langar til þess að deila með ykkur hvers vegna ég er að hugsa um tímann, hvernig hann tengist framtíðinni og hvað kemur markþjálfun tímanum við.

Eins og ég sé þetta þá er ég á ferðlagi með mér, ég veit ekki hvenær þessu ferðalagi líkur, líklega aldrei. Ef ég fer aðeins aftur í tímann, þegar ég var lítil, kannski svona sjö ára þá hafði ég heilmiklar áhyggjur af tímanum, ég er yngst fimm systra – og foreldrar mínir voru 40 og 45 ára þegar þau áttu mig. Ég var ekki mjög gömul þegar ég fór að velta fyrir mér hvað ég hefði langan tíma með foreldrum mínum, eðli málsins samkvæmt þá fannst mér þau verulega gömul og systur mínar engin unglömb. Mínar helstu áhyggjur snerust um það hvernig ég færi að því að koma öllum á elliheimili , mögulega skipuleggja jarðafarir og sjá um erfidrykkjuna. Gæti ég hreinlega staðið í þessu, séð um þetta allt?

Það sem að gerðist á hlaupunum var að ég týndi sjálfri mér. Þetta er sagan um það hvernig ég fann sjálfa mig og áttaði mig á tímanum.

Þessar pælingar komu til mín um daginn þegar ég var í dalnum – Eilífsdalnum. Ég hef líklega alltaf verið upptekin af tímanum. Mér hefur fundist skipta miklu máli að fara vel með tímann, ekki eyða tímanum í vitleysu, koma miklu í verk á stuttum tíma. Drífa sig. Í þessu kapphlaupi mínu í gegnum lífið þá hef ég komið heilmiklu í verk. Ég hef fengið hrós og klapp á bakið fyrir það hvað ég er drífandi, og fljót að vinna. Ég var með master í því að klára verkefni áður en þau komu til mín, hugsa fyrir alla – afgreitt – næsta mál. Það sem að gerðist á hlaupunum var að ég týndi sjálfri mér. Þetta er sagan um það hvernig ég fann sjálfa mig og áttaði mig á tímanum.

Hvað vildi ég?

Eins og ég sagði þá hef ég frá því ég man eftir mér verið að vinna upp tíma, vera á undan áætlun, komin á staðinn áður en ég legg af stað. Ég þróaði líka með mér hugsanalestur, þannig að ég gat séð fyrir hvað myndi gerast og hver yrðu viðbrögðin, þægilegt – svona skipulagsfræðingur. Samt ekki. Það var fyrir tveimur árum að ég tók ákvörðun, haustið 2015 – ég var orðin þreytt á að hlaupa án þess að vita hvert ég væri að fara. Ég sem var með prófílin að vita svörin, vera með stefnuna á hreinu, kunna ráðin, leysa vandamálin, snúa erfiðri stöðu í vinningsstöðu. Ég var leið. Innst inni vissi ég að ég var ekki með neina stefnu, allavega ekki mína eigin. Hvað vildi ég? Þetta var óþægileg, ágeng spurning og skipulagsfræðingurinn og hugsanalesarinn hafði engin svör. Hvað þá? Vinkona mín sem er markþjálfi sagði: Lilja hvers vegna skoðar þú ekki markþjálfunarnámið hjá Evolvia? Ég náði ekki að frussa efasemdunum nógu hratt út úr mér. En ég fór á kynningu, fannst þetta allt mjög skrítið þannig að mig langaði að vita meira. Núna tveimur árum seinna, er í raun magnað að hugsa tilbaka. Þá komum við að tímanum, þessari mælieiningu sem segir okkur hvar við stöndum, hvar við eigum að vera, hvert við eigum að vera komin, hverju við eigum að hafa áorkað, erum við með þetta, eða erum við að renna út á tíma, of seint að gera breytingu, of seint að taka upp nýja stefnu, enginn tími til að endurmeta. Það sem markþjálfun kenndi mér og er enn að kenna mér er að stoppa – heyra – og vera.

Hætt á hlaupum

Hvar stend ég núna? Fyrst og fremst með sjálfri mér. Það sem gerðist þegar ég hætti að hlaupa og eltast við tímann sem mér fannst alltaf vera að renna út, var að ég heyrði í sjálfri mér. Ég raunverulega hlustaði á sjálfa mig. Ég tók mér tíma, og rannsakaði hver ég er, fyrir hvað ég stend, hvert vil ég fara, hvað er mikilvægast fyrir mig. Og talandi um mælieiningu þá er þetta besti mælikvarði sem ég hef nokkurn tíma notað. Mín eigin gleði, mín eigin uppgötvun, frelsið mitt, það sem mig langar að koma frá mér, það sem ég vil standa fyrir, því sem ég vil gefa öðrum, sú manneskja sem ég vil vera. Þegar ég hugsa um tímann í samhengi við framtíðina þá hef ég komist að því að það er nægur tími, það sem er í boði er sá tími sem er núna, svo eigum við til hugmyndina um mögulega framtíð þar sem allt getur gerst. Mín framtíðarsýn er að vera til staðar – mig langar að vera boðberi hugmynda, möguleika, stækkana og trú á eigin getu.

Lilja Hallbjörnsdóttir,
ACC markþjálfi og eigandi Markhóls.

Lilja Hallbjörnsdóttir
Lilja Hallbjörnsdóttir
Lilja er ACC vottaður markþjálfi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *